Kynning á frambjóðendum til Kirkjuþingskosningar árið 2010:   

Bjarni Kristinn Grímsson

Dalhús 79, 112 Reykjavík - Tilnefndur af Grafarvogssókn

Ég er fæddur í Ólafsfirði 17. júlí 1955. Ég er því fimmtíu og fimm ára í sumar, árið 1975 kvæntist ég Brynju V. Eggertsdóttur og eigum við þrjá syni og þrjú barnabörn.

Ég ólst upp í Ólafsfirði og gekk í skóla þar, síðan lá leiðin í Menntaskólann á Akureyri, og svo í Háskóla Íslands. Ég útskrifaðist sem viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands í ársbyrjun 1981. Á síðustu árum hef ég verið í meistaranámi við HÍ og stefni á að ljúka því um næstu áramót.

Ég hef unnið margvísleg störf á ævinni bæði í landi og á sjó. Með námi og eftir það hef ég aðallega stundað skrifstofu- og stjórnunarstörf fyrst hjá Fiskveiðasjóði Íslands, síðan framkvæmdastjóri hjá Fiskiðju Sauðárkróks hf. Sauðárkróki. ég var kaupfélagsstjóri Kaupfélags Dýrfirðinga, Þingeyri í um 6 ár og bæjarstjóri í Ólafsfirði í 5 ár.

Ég var fiskimálastjóri í 6 ár, jafnframt ritstjóri tímaritsins Ægis, og fleiri rita Fiskifélags Íslands á sama tíma. Ég var framkvæmdastjóri nefndar Reykjavíkurprófastdæma, Reykjavíkurborgar, Kópavogsbæjar og Seltjarnarnessbæjar v/ kristnitökuhátíðar árin 1999 og 2000 og einnig verkefnastjóri hjá Kristnihátíðarnefnd á árinu 2000.

Ég starfaði sem sérfræðingur hjá Þjóðhagsstofnun í eitt ár 82000 – 2001). Um mitt ár 2001 varð ég deildarstjóri launadeildar Landspítala háskólasjúkrahúss (LSH) og síðar deildarstjóri í launaeftirliti. Frá árinu 2008 hef ég unnið sem sérfræðingur í innra eftirliti Fjársýslu ríkisins.

Ég hef setið í mörgum nefndum og ráðum í tengslum við mín störf og verið virkur í félagsmálum innan JC, Lions, Rotary og íþróttahreyfingarinnar. Innan kirkjunnar hef ég gengt trúnaðarstörfum frá árinu 1994 þegar ég var kjörinn í sóknarnefnd Grafarvogssóknar. Ég varð formaður sóknarnefndar árið 1995. Ég hef setið í stjórn Kirkjugarða Reykjavíkurprófastdæma frá árinu 1995 og er nú varaformaður framkvæmdastjórnar. Þá hef ég setið í Héraðsnefnd Reykjavíkurprófastdæmis eystra frá 1997.

Héraðsnefndarfundur með biskupi Íslands í apríl 2010Ég var kjörin á Kirkjuþing 1998 og hef nú setið þar í þrjú kjörtímabið. Fyrsta tímabilið var ég formaður allsherjarnefndar Kirkjuþings og annað tímabilið var ég formaður fjárhagsnefndar þingsins. Síðasta tímabilið hef ég setið í annars vegar laganefnd og hins vegar fjárhagsnefnd. Þá var ég kjörinn af Kirkjuþingi sem formaður Prestssetrasjóðs árið 1998 og gegndi því starfi þar til sjóðurinn var lagður niður með lögum 2008. Auk þessa hef ég komið víða við í nefndum og ráðum innan Þjóðkirkjunnar.

Þann tíma sem ég hef setið á Kirkjuþingi hef ég reynt að fylgja eftir málum sem varða uppbyggingu þjóðkirkjunnar og sérstaklega er varðar skipulag og þjónustu sem prestar og starfsmenn kirkjunnar veita. Skipulag sókna og prófastsdæma er ofarlega í huga og þörf á breytingu til frekari samvinnu og markvissara starfs innan kirkjunnar. Sem formaður fjárhagsnefndar Kirkjuþings á mínu öðru kjörtímabili skipuðu fjármálin veigamikinn sess. Sóknirnar hafa sóknargjöldin til ráðstöfunar, en í nýjum sóknum er þörf mikilla fjármuna til uppbyggingar en sóknargjöldin ekki mikil í upphafi og það sama má segja um sóknir þar sem fækkar íbúum og til staðar er gömul og friðuð kirkja. Þessi mál verður að leysa á þann hátt að hver um sig hafi ákveðið sjálfstæði til ákvarðana en öflugur stuðningur sé jafnframt til staðar þannig að kirkjan geti sýnt að starfsemi hennar sé öflug og fjármálin traust. Annars verður að segja að á síðasta áratug hefur orðið mikil breyting á fjármálastjórn innan kirkjunnar og almennt hafa fjármál sókna eflst verulega og hagur þeirra batnað. Hins vegar hafa orðið verulegar breytingar til hins verra nú síðustu misserin vegna niðurskurðar og lækkunar sóknargjalda. Síðasta kjörtímabil einkenndist af endurskoðun Þjóðkirkjulaga sem síðan náðu ekki í gegn á Alþingi vegna efnahagslegra aðstæðna.

Ég býð mig fram til kjörs á Kirkjuþing og vonast til að geta fylgt eftir þeim málum sem hafa verið til umfjöllunar innan kirkjunnar og á Kirkjuþingi. Einnig þeim málum nýjum sem koma upp og tekin verða fyrir á Kirkjuþingi.

Málefni kirkjunnar eru ekki eins einföld og fyrst virðist vera þegar komið er að þeim. Hafa verður í huga að trúmál eru mjög viðkvæm mál, persónubundin einkamál að dómi margra og af því má leiða að ekki er alltaf auðvelt að flétta saman hagkvæmni fjármála, skyldur kirkjunnar við einstaklinga og hlutverki kirkjunnar í byggðum landsins. En ekki síst hlutverki hennar í flóknu samfélagi borgarinnar með sínum fjölbreytileika og mismunandi trúarbrögðum. Það er ekki alltaf sjálfgefið að kirkjunni sé fagnað ef hún ætlar sér að koma að málum og eða að taka hugsanlega afstöðu til mála.

Kirkjan hefur náð að finna leiðir til að takast á við flest mál og ná um þau sátt þannig að sem flestir geti unað við sitt og að því þarf að stefna að þjóðkirkjan geti áfram og í framtíðinni mótað sér stefnu og framfylgt henni þannig að sem flestir landsmenn geti heils hugar fylgt sér undir merki hennar. Með því móti verður vegferð okkar og þjóðkirkjunnar samofin og öllum til heilla, í trú á Guð almáttugan.

 


Reykjavíkurprófastsdæmi eystra   •   Skrifstofa í Breiðholtskirkju   •   Þangbakka 5   •   Sími: 567 4810   •   Netfang:

www.tru.is

Barnastarf þjóðkirkjunnar