Kynning á frambjóðendum til Kirkjuþingskosningar árið 2010:   

Páll S. Elíasson

Kríuhólum 4, 111 Reykjavík - Tilnefndur af Hólabrekkusókn

Ég heiti Páll Sveinbjörn Elíasson og er fæddur 18. apríl 1952 á Þingeyri við Dýrafjörð, en ólst upp að Hrauni og síðar Arnarnúpi í Keldudal Dýrafirði, til fimmtán ára aldurs.

Námsferill:

Hóf skólagöngu tíu ára gamall í barnaskólanum í Haukadal í Dýrafirði, en þar var farskóli. Eftir fullnaðarpróf var ég einn vetur í Héraðsskólanum í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp, og síðan tvo vetur í Héraðsskólanum að Núpi Dýrafirði, þar sem ég lauk landsprófi vorið 1969.

Vorið 1973 útskrifaðist ég síðan úr Stýrimannaskólanum í Reykjavík, með Hið meira fiskimannapróf eins og það mun hafa heitið þá. En það gaf réttindi til skipstjórnar á öllum fiskiskipum. Árið 1990 tók ég síðan Meirapróf bifreiðarstjóra, eða Aukin ökuréttindi eins og þau kallast nú.

Starfsferill:

Frá fimmtán ára aldri til þrjátíu og níu ára starfaði ég sem sjómaður, eða við störf tengd sjómennsku og útgerð. Lengst af sem stýrimaður og skipstjóri á fiskibátum og togurum. Átti þá heima á Þingeyri fram til ársins 1986, en frá 1986 til 1991 á Blönduósi. Árið 1991 flutti ég svo til Reykjavíkur, og hóf þá störf sem bílstjóri hjá Verksmiðjunni Vífilfelli, og starfa þar enn í dag.

Áhugamál/Tómstundir:

Síðan 1995 hef ég sungið í Kór Fella-og Hólakirkju og jafnframt síðan 2007 í Kór Kópavogskirkju. Árið 1995 tók ég sæti í sóknarnefnd Hólabrekkusóknar, og sit þar nú sem varaformaður sóknarnefndar. Af öðrum áhugamálum má nefna, að ég hef gaman af því að fara í gönguferðir í óbyggðum, með tjaldið mitt og annað það sem til þarf.

Lokaorð:

Ég býð mig fram til Kirkjuþings, vegna þess að ég hef áhuga á að starfa á þeim vettvangi, og leggja þar mitt af mörkum, eftir því sem ég hef vit og getu til. Ég hef almennt séð áhuga á starfi kirkjunnar, og vonast til þess að geta tekið þátt í að þróa það áfram, þó án þess að kastað sé fyrir róða gömlum og góðum gildum, sem eiga fullt erindi til framtíðar, ekki síður en til fortíðar og nútíðar.

 

Staddur á Fimmvörðuhálsi - nákvæmlega þar sem gosið var 2010     Harmonikkan er sjaldan langt frá Páli

Á Fimmvörðuhálsi     Páll með harmónikkuna á góðri stund


Reykjavíkurprófastsdæmi eystra   •   Skrifstofa í Breiðholtskirkju   •   Þangbakka 5   •   Sími: 567 4810   •   Netfang:

www.tru.is

Barnastarf þjóðkirkjunnar