Fjörugur frímerkjaklúbbur í Seljakirkju á þriðjudögum

• 16. febrúar 2010:

Fjörugur frímerkjaklúbbur er í Seljakirkju alla þriðjudaga kl. 17

Á þriðjudögum hittist áhugafólk á öllum aldri um frímerki og frímerkjasöfnun í Seljakirkju. Þegar fréttasnápur leit við í dag voru nokkrir yngri þátttakendur mættir með frímerkjasafnið sitt og voru að raða því skipulega og bæta inn nýjum frímerkjum.

Þessi frímerkjaklúbbur var starfræktur fyrir fjölmörgum árum í kirkjunni en starfsemin lagðist niður um tíma en hóf aftur göngu sína í haust. Jón Zalewski er leiðbeinandi en for- eldrar aðstoða líka og er móðir einnar stelpunnar sem þarna var, frímerkjasafnari og var í klúbbnum hér áður fyrr. Hún mætti einn daginn með frímerkjasafnið sitt – upp á einar átta troðfullar bækur af frímerkjum. Þetta er gefandi og fréttasnápur man eftir þeim tíma þegar hann dundaði við þetta.

Hann á einhvers staðar í bílskúrnum fulla frímerkjabók og hver veit nema hann leiti bókina uppi og mæti sjálfur einn daginn í frímerkjaklúbbinn og taki upp fyrri iðju í frímerkjasöfnuninni.

Fólk getur hjálpað með því að safna saman umslögum frá jólakveðjunum og öðrum bréf- um og gefa klúbbnum til að vinna úr. Eitt er að fá frímerki á umslagi og svo er það listin að ná því af – yfir gufu, án þess að frímerkið skemmist. T.d. verða takkarnir umhverfis að halda sér og vera án krumpu.

Frímerkjaklúbburinn er öllum opinn og börn og fólk á öllum aldri geta mætt í Seljakirkju á þriðjudögum kl. 17 – 19.


Reykjavíkurprófastsdæmi eystra   •   Skrifstofa í Breiðholtskirkju   •   Þangbakka 5   •   Sími: 567 4810   •   Netfang:

www.tru.is

Barnastarf þjóðkirkjunnar