Mömmumorgunn og afmæli í Breiðholtskirkju

• 30. mars 2010:

Mömmumorgunn og afmæli í Breiðholtskirkju

Á föstudaginn leit fréttasnápur við í Breiðholtskirkju eins og hann gerir af og til, því hann veit að það er alltaf gott kaffi á könnunni þar sem og í öðrum kirkjum og góður staður heim að sækja.

Þegar inn var komið voru prestar og annað starfsfólk í eldhúsinu að ræða málin og flottar tertur voru þar á borðum, svo maður var fljótur að hlamma sér þar niður. Þarna var meira ein morgunkaffi, því þau séra Gísli Jónasson prófastur og Guðrún Júlíusdóttir skrifstofustjóri prófastsdæmisins áttu nefnilega afmæli þennan dag og óskum við þeim aftur til hamingju með daginn.

Eftir kaffisopann fóru prestar að undirbúa sig fyrir messur helgarinnar og ég leit við í safnaðarheimilið, því þar voru mömmurnar og einn pabbi með börnin sín og voru í saumaklúbbsumræðum eins og þær gerast bestar. Flest börnin voru reyndar sofandi úti í vagni en þau þrjú sem inni voru fengu óspart athygli og leifturblossa úr myndavélinni, því fátt er skemmtilegra en að taka myndir af brosandi andlitum barna – nema þá að taka myndir af brosandi foreldrum þeirra.

Um leið og við förum inn í páskahátíðina kveðjum við þau að sinni og óskum þeim og öllum lesendum vefs Reykjavíkurprófastsdæmis eystra gleðilegrar páskahátíðar og vonumst til að sjá sem flest ykkar í messum yfir hátíðarnar, en kirkjur prófastsdæmisins bjóða upp á fjölbreytta dagskrá auk hefðbundinnar hátíðardagaskrár.

Gleðilega páskahátíð!


Reykjavíkurprófastsdæmi eystra   •   Skrifstofa í Breiðholtskirkju   •   Þangbakka 5   •   Sími: 567 4810   •   Netfang:

www.tru.is

Barnastarf þjóðkirkjunnar