Jólasúpusamvera var fyrir eldri borgara í Lindakirkju

• 9. desember 2010:

Skemmtileg jólasúpusamvera var fyrir eldri borgara í Lindakirkju

Í hádeginu í dag, 9. desember, voru eldri borgarar í kirkjustarfi Lindakirkju með sína vikulegu súpusamveru í hádeginu, nema að þessu sinni var það jólasúpusamvera og þá var eitthvað annað en súpa og brauð í matinn, því þessi flotti jólamatur var eldaður í mannskapinn og líkaði vel.

Prestarnir, séra Guðmundur Karl Brynjarsson og séra Guðni Már Harðarson voru gestgjafarnir og þeir geta verið ánægðir með hvað starfið í sókninni er kraftmikið á allan hátt, hvort sem um er að ræða kirkjustarf eldri borgara, barna- og unglingastarfið, kórastarf, mömmumorgnar og auk þess eru þeir byrjaðir að hafa pabbamorgna á laugardögum.

Eftir matinn leit Ómar Ragnarsson inn og söng með gestum eins og honum er lagið. Séra Guðmundur Karl kynnti hann aðeins, þótt varla þurfi að kynna þann ágæta mann, með því að tala um fyrstu hljómplötuna sem hann eignaðist sem kornabarn, "Krakkar mínir komið þið sæl" með Ómari, sem hann heldur enn mikið upp á. Hann kom með plötuna með sér og bað Ómar um að árita hana fyrir sig.

Eftir að Ómar hafði sungið fyrir gestina var hlutavelta og hlutu margir góða vinninga í þeirri veltu. Vef-fréttasníkir þakkar fyrir matinn og skemmtileg kynni í hádeginu og mun örugglega kíkja við þarna aftur - sem kaffi- og kökusníkir, um leið og hann tekur næst myndir af kirkjustarfi þeirra.

 


Reykjavíkurprófastsdæmi eystra   •   Skrifstofa í Breiðholtskirkju   •   Þangbakka 5   •   Sími: 567 4810   •   Netfang:

 

www.tru.is

Barnastarf þjóðkirkjunnar