Orlofsdvöl á Löngumýri sumarið 2008

• 14. júlí 2008:

Orlofsdvöl á Löngumýri sumarið 2008

Í sumar dvöldu þrír hópar eldri borgara á Löngumýri í Skagafirði. Ýmislegt var til gagns og gamans gert. Á hverjum morgni var helgistund í kapellunni og á eftir var farið í morgunleikfimi. Margir notfærðu sér líka sundlaugina sem er á staðnum.

Í öllum hópum var spilað BINGÓ og fóru margir heim með góða vinninga. Við höfðum sögustundir þar sem lesið var um þekkta einstakl- inga eða þekkt málefni og á eftir voru umræður um efnið. Þessi þáttur var mjög vinsæll.

Á kvöldin var alltaf kvöldvaka og þá komu hópar eða einstaklingar úr Skagafirði í heimsókn og fluttu skemmtiefni. Má þar nefna t.d. Álftagerðisbræður sem komu í heimsókn í alla hópana, einsöngstónleika Ólafar Ólafsdóttur sópransöngkonu sem við fengum að njóta í fyrsta hópnum svo nokkuð sé nefnt.

Fyrstu tveir hóparnir fóru í ferð um Húna- vatnssýslu. Keyrt var um Vatnsdal og einnig skoðuðum við heimilisiðnaðarsafnið á Blönduósi og kirkjuna á Þingeyrum. Seinasti hópurinn fór um Fljótin til Ólafsfjarðar, Dalvíkur og Akureyrar.

Á Dalvík var skoðað Minjasafnið Hvoll og fannst öllum mikið til þess koma bæði er þar mikið af munum sem margir muna frá fyrri tíð og einnig er þar stofa sem geymir húsgögn og persónulega muni úr eigu Jóhanns Péturssonar Svarfdælings sem dvaldi seinustu æfiár sín á Dvalarheimilinu Dalbæ.

Á sama tíma og hópar eitt og tvö dvöldu fyrir norðan gengu bjarndýr á land í Skagafirði og vakti það mikla athygli. Ekkert bjarndýr kom á meðan hópur þrjú var fyrir norðan en við gátum bætt okkur það upp með því að skoða bjarndýr á minjasafninu á Dalvík.

Hópurinn sem var á Löngumýri 17. júní fór í guðsþjónustu í Sauðárkrókskirkju. Prestur var sr. Gunnar Jóhannesson. Á eftir var komið við í ísbúð og var af þessu bæði gagn og gaman.

Seinasti hópurinn fór í kvöldguðsþjónusti í Mælifellskirkju. Prestur þar var sr. Ólafur Hallgrímsson sem er okkur í orlofinu af góðu kunnur. Hann hefur komið til okkar í heimsókn nánast í alla hópa sem hafa dvalið á Löngumýri frá upphafi. Kór eldri borgara í sveitinni söng og leiddi almennan söng. Á eftir var farin svokölluð efri leið heim í blíðskapar veðri og sögðu sumir að aldrei hefðu þeir séð svo fallegt sólarlag eins og það sem við okkur blasti þessa kvöldstund.

Gunnar Rögnvaldsson forstöðumaður á Löngumýri var leiðsögumaður í öllum ferðum okkar og var einnig með okkur daglega í dagsránni. Það má með sanni segja að allir hópar fengu að njóta góðra daga meðan þeir dvöldu í orlofinu. Góður rómur var gerður að öllum aðbúnaði á Löngumýri og hlýju viðmóti starfsfólksins.

Að orlofinu standa Ellimálaráð Reykjavíkurprófastsdæma, Ellimálanefnd Þjóðkirkjunnar og Löngumýrarskóli. Auk starfsfólks á staðnum voru þær Valgerður Gísladóttir og Edda Jónsdóttir með umsjón með hópunum. Að þessu sinni voru einnig með okkur djáknanemar í starfsþjálfun þær Ásdís Blöndal og Margrét Gunnarsdóttir.

 


Reykjavíkurprófastsdæmi eystra   •   Skrifstofa í Breiðholtskirkju   •   Þangbakka 5   •   Sími: 567 4810   •   Netfang:

www.tru.is

Barnastarf þjóðkirkjunnar