Kvenfélag Breiðholts hefur 40. starfsár sitt - aðalfundur

 

 

 

 

 

 

 

• 18. febrúar 2009:

Kvenfélag Breiðholts hefur 40. starfsár sitt - aðalfundur

Vefaranum allt í einu í hug að skreppa niður í Breiðholtskirkju í gærkvöldi til að fá upplýsingar um æskulýðsstarfið og væntanlega ferð þeirra í Laser-Tag og fleira. En hópurinn var nýfarinn með rútu. En ferðin varð samt ekki endasleppt, því ég fann kaffiilminn fram á gang og læddist því í áttina að upptökunum.

Þar hitti ég hressar stelpur úr Kvenfélagi Breiðholts, sem voru að halda sinn 39. aðalfund og um leið að hefja sitt 40. starfsár. Þegar þær sáu hvað ég hafði mikinn áhuga á fallega kökuborðinu og kaffinu, varð afráðið að ég mundi verða ókynntur leynigestur fundarins. Fór ég því að taka myndir til að vinna mér inn fyrir veitingunum á staðnum.

Kvenfélag Breiðholts hóf starfsemi sína um það leiti sem byggð var að myndast í Neðra-Breiðholti og hafa Breiðholtsskóli og Breiðholtskirkja notið góðs af störfum þeirra í gegnum tíðina og ætíð verið ánægjulegt samstarf á milli þeirra og kirkjunnar. Þær hafa fært kirkjunni ýmislegt í gegnum tíðina og m.a. gáfu þau félagsheimilinu allan borðbúnað, borð og stóla þegar það var opnað. Þau hafa líka árlega veitt nemendum í 6. og 10. bekk Breiðholtsskóla viðurkenningu fyrir góðan árangur.

Nýlega stóðu þær í stórræðum og aðstoðuðu þegar Breiðholtsdagar voru í haust og forseti Íslands heimsótti t.d. Árskóga og stofnanir í Breiðholti Einnig komu þær við sögu við skipulag átaksins 1-2 og Reykjavík og Vetrahátíðarinnar í Breiðholti í síðustu viku. Svona starf kvenfélagsins gefur lífinu gildi og eflir félagsandann.

Kvenfélag Breiðholts er opið öllum konum og ekkert aldurslágmark né hámark er fyrir þátttöku, bara áhugi á að láta gott af sér leiða og hafa gaman af góðu félagslífi. Formaður félagsins er Þóranna Þórarinsdóttir og ef einhverjir vilja bætast í hópinn er málið bara að hringja í hana í síma 568 1418 eða bara mæta á fund, en þær halda reglulega fund í Breiðholtskirkju þriðja þriðjudag í hverjum mánuði frá október til maí.

Að lokum þakkar vefarinn fyrir sig og kökurnar og óskar Kvenfélagi Breiðholts alls hins besta á þessu fertugasta starfsári þeirra.

 


Reykjavíkurprófastsdæmi eystra   •   Skrifstofa í Breiðholtskirkju   •   Þangbakka 5   •   Sími: 567 4810   •   Netfang:

www.tru.is

Barnastarf þjóðkirkjunnar