Með sunnudagaskólahátíð í Seljakirkju lýkur vetrarstarfinu

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

• 20. apríl 2009:

Sunnudagaskólahátíð í Seljakirkju í lok vetrarstarfs barnanna

Í gær buðu krakkarnir í Seljakirkju sunnudagaskólabörnum í Breiðholtskirkju og Fella- og Hólakirkju að koma til sín til að halda með þeim sunnudagaskólahátíð, sem haldin er reglulega í lok vetrarstarfsins. Séra Valgeir Ástráðsson messaði og stjórnaði hátíðinni, sem börnin tóku virkan þátt í.

Vefarinn ákvað að bjóða fjögurra ára barnabarni sínu með og kom faðir hennar líka með henni og hún naut sín svo vel og tók vel undir söngvana – og hélt því áfram eftir að heim var komið, meira að segja bergmálaði húsið þegar hún söng í sturtunni fyrir svefninn, “Jesús er besti vinur barnanna”.

Nína Björg Vilhelmsdóttir sem annast barnastarfið í Breiðholtskirkju sagði börnunum söguna af Jesús og fiskimönnunum og það gerði hún svo lifandi og skreytti söguna með litlum báti og neti, að allir krakkarnir fylgdust dolfallnir með. Það var gaman að fylgjast með börnunum taka svona virkan þátt í messugjörðinni og öruggt að öll þessi börn munu mæta aftur næsta vetur í sunnudagaskólann.

Í lokin var kirkjugestum boðið upp á pylsuveislu sem var vel þegin. Myndirnar er að finna á myndasíðunni okkar og segja meira en þúsund orð hvað kirkjan er lifandi og skapandi í góðu uppeldi barnanna.

 


Reykjavíkurprófastsdæmi eystra   •   Skrifstofa í Breiðholtskirkju   •   Þangbakka 5   •   Sími: 567 4810   •   Netfang:

www.tru.is

Barnastarf þjóðkirkjunnar