100 messuþjónar mættu til samveru í Breiðholtskirkju

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

• 10. maí 2010:

100 messuþjónar í samveru á vegum Reykjavíkurprófastsdæmanna

Fimmtudaginn 6. maí komu um 100 messuþjónar til samveru í Breiðholtskirkju á vegum Reykjavíkur- prófastsdæmanna. Þar voru mættir fulltrúar frá 17 söfnuðum, sem annað hvort eru með messu- hópa eða hafa hug á því að stofna messuhópa við kirkju sína, en á síðustu árum hefur verið mikill vöxtur í þessu starfi kirkjunnar, sem miðar að því að kalla fleiri til þjónustu í kirkjunni á helgum dögum.

Messuþjónar taka virkan þátt í undirbúningi og framkvæmd messunnar meðal annars með því að eiga fund með prestinum í vikunni fyrir messuna og ræða texta dagsins og síðan að lesa ritningar- lestra, aðstoða við útdeilingu, biðja bæna, taka á móti kirkjugestum við kirkjudyr, tendra altarisljósin og svona mætti áfram telja.

Hugmyndafræðin að baki messuþjónastarfinu er fengin frá Fredrik Modeus, sem starfar sem prestur í Lundi í Svíþjóð, en hann kom hingað til lands fyrir þremur árum til þess að kynna þetta starf sem hefur aukið verulega kirkjusóknina hjá honum.

Ljóst er að messuþjónastarfið eru einn af helstu vaxtabroddum kirkjunnar, enda hefur það gefið góða raun hjá þeim söfnuðum sem hafa tekið það upp hér á landi og aukið virkni og þátttöku safnaðarins í helgihaldinu. Einnig hefur það gefið sóknarbörnunum tækifæri til þess að hafa bein áhrif á messuna, t.d. með vali bæna, sálma og með innleggi í prédikun. Einn messuþjónninn lýsti því einmitt á samverunni, hve gott væri að koma ekki aðeins sem þiggjandi til kirkju heldur einnig sem þátttakandi sem hefur eitthvað fram að færa.

 


Reykjavíkurprófastsdæmi eystra   •   Skrifstofa í Breiðholtskirkju   •   Þangbakka 5   •   Sími: 567 4810   •   Netfang:

 

www.tru.is

Barnastarf þjóðkirkjunnar