Guðfræðileg rit Dr. Sigurjóns Árna Eyjólfssonar
Dr. Sigurjón Árni Eyjólfsson hefur gefið út eftirtalin fjögur rit. Hann er með embættispróf í guðfræði frá Háskóla Íslands og doktorspróf í sömu grein frá Háskólanum í Kiel í Þýskalandi. Hann er hérðasprestur í Reykjavíkurprófastsdæmi eystra og stundakennari við guðfræðideild Háskóla Íslands. Bækurnar eru til sölu hjá Hinu íslenska bókmenntafélagi - sjá vefsíðu HÍB.
Guðfræði Marteins Lúthers![]() Á Íslandi hefur guðfræði Lúthers haft mikil áhrif en jafnframt verið almenningi nokkuð óljós. Þannig er t.d. mörgum hulið að áherslan á samhjálp og hin margrómaða barnatrú geymir í raun kjarnann í guðfræði Lúthers. Á Íslandi hefur til þessa engin heildstæð úttekt verið gerð á guðfræði Lúthers og er bætt úr því með þessu ritverki.
Í fyrsta hluta verksins er gerð grein fyrir umfjöllun Lúthers á stöðu mannsins og einsemd í hringiðu lífsins. Í öðrum hluta þess er fjallað um þá nýju sýn á lífið sem maðurinn öðlast í Kristi. Í þriðja hlutanum er trúarbaráttu og lífsgleði einstaklingsins í þverstæðufullum heimi lýst. Í verkinu er gerð ítarleg grein fyrir sögu Lúthersrannsókna og helstu hugtökum í guðfræði hans: Lögmál og fagnaðarerindi, synd og dómi, samviskunni, krossi Krists og friðþæingu, bæninni, réttlætingu af trú, prófun trúarinnar og trú og skynsemi.
Kristin siðfræði í sögu og samtíð![]() Á Íslandi hefur að sönnu nokkuð verið ritað um kristna siðfræði, en ekkert heildstætt íslenskt yfirlitsverk hefur komið út síðan Helgi Hálfdanarson skrifaði Kristilega siðfræði eptir lútherskri kenningu fyrir rúmri öld. Það rit sem hér kemur fyrir sjónir Íslendinga er skrifað í þeim tilgangi að draga helstu útlínur kristinnar siðfræði og þeirrar heimsmyndar sem hún endurspeglar.
Í þeirri viðleitni styðst höfundur við boðorðin tíu og túlkunarsögu þeirra, en útlegging á boðorðunum er einkennandi fyrir siðfræði evangelísk-lútherskrar kirkju. Þegar Marteinn Lúther skrifaði sitt fyrsta eiginlega siðfræðirit, Um góðu verkin, lagði hann út af boðorðunum tíu. Það gerði hann einnig í Fræðunum minni og Fræðunum meiri. Boðorðin hafa æ síðan átt fastan sess í heimilisguðrækninni og fermingarkveri lúthersku kirkjunnar og í boðun hennar og kennslu við guðfræðideildir. Útlegging á þeim hefur því mótað siðfræði evangelísk-lútherskrar kirkju og guðfræði í nær 500 ár. Boðorðunum tíu er venjulega skipt í tvennt.
Ríki og kirkja![]() Uppruni og þróun þjóðkirkjuhugtaksins Á Íslandi hefur lengi vantað guðfræðilega úttekt á sambandi ríkis og kirkju og þeirri hugmyndafræði sem býr að baki þjóðkirkjunni. Hér er rakin saga evangelísk-lúthersks kirkjuskilnings allt frá dögum Marteins Lúthers til Friedrichs Schleiermachers, og þaðan þræðir raktir til nútímans með vangaveltum um hlutverk kirkjunnar í sundurleitu samfélagi nútímans.
Hugtakið þjóðkirkja hefur í sér fólginn þann skilning sem lútherskir guðfræðingar hafa löngum lagt í samband ríkis og kirkju í löndum mótmælenda. Kirkjan er málstofa trúarinnar þar sem kristinn einstaklingur nýtur frelsis til að íhuga með öðrum trú sína og trúarreynslu. Ungbarnaskírn markar upphaf ævilangrar samfylgdar. Kirkjan lagar sig að samfélaginu og þótt innra starf hennar endurspegli að vissu leyti þjóðareinkenni er fjölhyggja ekki útilokuð. Skipulag kirkjunnar byggist á hugmyndinni um “almennan prestsdóm” og þess vegna fylgir hún svo vel lýðræðisþróun Vesturlanda sem raun ber vitni. Fjöldi skýringarmynda prýðir bókina.
Tilvist, trú og tilgangur![]() Er Guð til? Hver er tilgangur lífsins? Guðfræðingar hafa tíðum leitað í smiðju til heimspekinnar til að skýra samband Guðs og manns. Í þessari bók er fjallað um nokkrar helstu kenningar um tilvist Guðs, allt frá guðssönnunum Anselms til guðsafneitunar Nietzsches. Lýst er tengslum guðfræði og heimspeki, inntak trúarhugtaksins skýrt, auk þess sem fjallað er um þá tilvistartúlkun sem löngum hefur sett mark sitt á evangelísk-lútherska guðfræði.
|