Kynning á frambjóðendum til Kirkjuþingskosningar árið 2010:   

Anna M. Axelsdóttir

Þangbakka 10, 109 Reykjavík - Tilnefnd af Breiðholtssókn

Vegna mikils áhuga á málefnum Þjóðkirkjunnar hef ég, Anna M. Axelsdóttir í sóknarnefnd Breiðholtssóknar, ákveðið að gefa kost á mér til kjörs kirkjuþingsfulltrúa næstu 4 árin fyrir Reykjavíkurprófastsdæmi eystra.

Kirkjumál hafa verið mér hugleikin frá unglingsárum þegar ég gegnum foreldra mína fylgdist með upphafi safnaðarstarfs og kirkjubyggingu í Bústaðasókn.

Á árunum 1980 – 87 starfaði ég á Biskupsstofu og kynntist þar m.a. störfum Kirkjuráðs og Kirkjuþings. Ég fór að koma oftar í kirkjuna og þegar Leikmannaskólinn tók til starfa sótti ég þar nokkur námskeið. Í vetur hef ég tekið þátt í námskeiðunum “Að starfa í kirkjunni”. Ég hef verið í biblíuleshópi, farið á Alfanámskeið og notið kyrrðardaga í Skálholti.

Þegar verið var að leggja drög að byggingu Breiðholtskirkju bjó ég í sókninni. Þá var ég beðin að vera í sóknarnefnd og sá eftir seinna að hafa ekki þegið það boð. Ég flutti aftur í Breiðholtið og hef verið í sóknarnefndinni í nokkur ár, þar af ritari frá árinu 2008 og messuþjónn að auki frá í fyrravetur.

Frá 1989 hef ég verið vikur félagi í POWERtalk International, sem áður hét ITC og þar áður, á Íslandi, Málfreyjur. Þar hef ég margt lært, þar á meðal fundarsköp. Ég hef líka gengt flestum embættisstörfum í þeim ágæta félagsskap.

Ég er nú málaskrárritari hjá embætti ríkissaksóknara en senn líður að starfslokum. Ég er 68 ára, fædd og uppalin í Reykjavík. Árið 1959 lauk formlegri skólagöngu minni þegar ég lauk gagnfræðaprófi frá Kvennaskólanum í Reykjavík.

Þetta er í annað sinn sem ég sækist eftir kjöri til fulltrúa á Kirkjuþingi, þar sem ég svo gjarnan vil ljá lið mikilvægum málum fyrir kirkju og Kristni í landinu. Þess skal getið að fyrir fjórum árum hlaut ég kosningu til varafulltrúa á Kirkjuþingi f.h. prófastsdæmisins.

 


Reykjavíkurprófastsdæmi eystra   •   Skrifstofa í Breiðholtskirkju   •   Þangbakka 5   •   Sími: 567 4810   •   Netfang:

www.tru.is

Barnastarf þjóðkirkjunnar