Kynning á frambjóðendum til Kirkjuþingskosningar árið 2010:Guðjón Ólafur JónssonGvendargeisla 58, 113 Reykjavík - Tilnefndur af Grafarholtssókn Hver er maðurinn?Ég er fæddur 17. febrúar 1968 á Akranesi. Foreldrar mínir eru sr. Jón E. Einarsson (1933-1995), prófastur í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd og Hugrún Valný Guðjónsdóttir (1943), sem nú býr í Kópavogi. Kirkjustarf er mér því í blóð borið og má segja að ég hafi meira og minna alist upp í kirkjunni. Eiginkona mín er Helga Björk Eiríksdóttir (1968), viðskiptafræðingur. Synir okkar eru Hrafnkell Oddi (1993) og Egill Hlér (1998).MenntunÉg lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1987 og embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands 1992. Þá hef ég ennfremur lokið þriggja missera rekstrar- og viðskiptanámi frá Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands, tveggja missera verðbréfaviðskiptanámi frá Stjórnendaskóla Háskólans í Reykjavík og mastersnámi í alþjóðalögum frá Háskólanum í Edinborg. Ég stunda nú meistaranám við Háskóla Íslands í opinberri stjórnsýslu samhliða starfi mínu. Ég öðlaðist réttindi til málflutnings fyrir héraðsdómi 1999 og fyrir Hæstarétti Íslands 2004.StarfsferillÉg starfa nú sem hæstaréttarlögmaður og hef frá árinu 1999 rekið eigin lögmannsstofu í félagi við aðra, nú JP Lögmenn (www.jp.is), sem eru með skrifstofur í Reykjavík og á Selfossi. Áður hafði ég m.a. verið aðstoðarmaður umhverfisráðherra í fjögur ár og unnið sem lögfræðingur hjá embætti ríkissaksóknara í tvö ár. Þá var ég um tíma varaþingmaður og síðar alþingismaður.Auk þessa hef ég gegnt ýmsum öðrum opinberum störfum, m.a. verið stjórnarformaður Strætó bs., stjórnarformaður Vinnueftirlits ríkisins, varaformaður stjórnar Landmælinga Íslands og formaður barnaverndarnefndar Reykjavíkur svo eitthvað sé nefnt, auk þess að hafa átt sæti í fjölda annarra opinberra nefnda og ráða. Þá hef ég einnig setið í stjórnum fjölda fyrirtækja í eigu innlendra og erlendra aðila og var m.a. stjórnarformaður Félagsstofnunar stúdenta um átta ára skeið. Af hverju Guðjón Ólafur?Ég hef átt sæti í sóknarnefnd Grafarholtssóknar frá 2005 og tók við formennsku í nefndinni árið 2009. Sá tími hefur verið viðburðarríkur og skemmtilegur. Hafist var handa við hönnun og byggingu kirkju, sem var vígð í desember 2008. Klukkur voru vígðar í desember 2009 og nú er unnið að smíði orgels í kirkjuna. Að öðru leyti er kirkjan fullbúin. Safnaðarstarfið er blómlegt og vel sótt.Ég hef áhuga á að starfa frekar fyrir kirkjuna og hef þess vegna ákveðið að gefa kost á mér til kjörs á kirkjuþing. Ég tel nauðsyn á að efla þjóðkirkjuna, sem sameinað hefur íslensku þjóðina öldum saman, og berjast gegn þeim öflum, sem leynt og ljóst vinna gegn kirkjunni. Ég tel að fjölbreytt menntun mín og víðtæk starfsreynsla, m.a. í stjórnsýslunni, á Alþingi og í dómskerfinu, geti nýst vel á kirkjuþingi. Þá tel ég mikilvægt að fulltrúar yngra fólks séu í hópi kirkjuþingsmanna, bæði til að sjónarmið þeirra fái að heyrast og að eðlileg endurnýjun eigi sér stað. Ég er tilbúinn að taka við keflinu og óska því eftir stuðningi í yfirstandandi kirkjuþingskosningum.
|