Kynning á frambjóðendum til Kirkjuþingskosningar árið 2010:   

Hafþór Freyr Sigmundsson

Laugalind 6, 201 Kópavogi - Tilnefndur af Lindasókn

Nú eru hafnar kosningar til kirkjuþings og þegar leitað var eftir framboðum þá fann ég að hér væri um að ræða áskorun sem ég þyrfti að taka.

Ég heiti Hafþór Freyr Sigmundsson, rétt liðlega fertugur og er stoltur faðir fjögurra barna. Ég er kvæntur yndislegri konu, Kristínu Helgu Ólafsdóttur framhaldsskólakennara og öll eigum við okkar trúarlegan heimavöll hjá íslensku þjóðkirkjunni. Saman höfum við hjónin notið þess að starfa að málum Lúterskrar hjónahelgar hér á Íslandi á undanförnum árum.

Ég er íslenskufræðingur að mennt en hef starfað sem ráðgjafi hjá hugbúnaðarfyrirtækinu Libra í Kópavogi sl. tíu ár.

Sóknin okkar heitir Lindasókn og ég hef verið svo heppinn að fá að starfa innan sóknarnefndar frá stofnun hennar árið 2002 og verið varaformaður hennar síðustu misseri. Á þeim tíma hefur sóknin stækkað og vaxið – bæði hvað fólksfjölda varðar en ekki síst þegar litið er til starfsemi og þátttöku sóknarbarna. Sóknin er í dag þriðja stærsta sókn landsins og söfnuðurinn hefur reist sér hús, Lindakirkju, sem nýtist fyrir nær alla þá starfsemi sem kirkjan okkar býður upp.

Ég tók sæti í stjórn Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma fyrir um ári og er jafnframt varamaður í stjórn Útfararstofu kirkjugarðanna.

Það eru mörg ögrandi verkefni sem bíða kirkjuþings t.a.m. hvernig auka megi lýðræði í kjöri til kirkjuþings. Þær kosningar sem nú eru hafnar verða nokkuð góður prófsteinn á núverandi fyrirkomulag. Formenn sóknarnefnda voru brýndir til að hvetja þá sem kosningarétt hafa til að nýta hann. Niðurstaðan mun svo verða innlegg í þá umræðu að auka enn frekar möguleika sóknarbarna í þjóðkirkjunni til þátttöku t.a.m. hvort opna eigi fyrir það að kosningar til kirkjuþings verði öllum opnar sem á annað borð tilheyra íslensku þjóðkirkjunni. Slík skref tel ég að verði að stíga af varkárni.

Ég þigg þinn stuðning en veit að í þeim hópi sem velja þarf úr eru einstaklingar sem allir vilja veg kirkjunnar sem mestan. Ég óska þess að komandi kirkjuþing skili góðu starfi sem verði þjóðkirkjunni til blessunar og heilla.

 


Reykjavíkurprófastsdæmi eystra   •   Skrifstofa í Breiðholtskirkju   •   Þangbakka 5   •   Sími: 567 4810   •   Netfang:

www.tru.is

Barnastarf þjóðkirkjunnar