Kynning á frambjóðendum til Kirkjuþingskosningar árið 2010:   

Margrét Björnsdóttir, fyrsti varaforseti Kirkjuþings

Fellasmára 10, 201 Kópavogi - Tilnefnd af Digranessókn

Ég er fædd í Reykjavík árið 1954 en fjölskyldan fluttist í Kópavoginn árið 1957 og hef ég búið þar síðan. Lengst af hef ég aðallega starfað sem fjármála- og framkvæmdastjóri ýmissa fyrirtækja og félagasamtaka, síðast hjá Siglingasambandi Íslands.

Fjölskyldukonan

Ég er gift Kristjáni Leifssyni, verkstjóra og eigum við tvö börn, Birnu 23 ára viðskiptafræði- nema og Magnús Ingva 18 ára menntaskólanema. Stjúpbörn mín eru þau Borghildur, viðskiptafræðingur, Leifur Arnar, véla- og iðnaðarverkfræðingur og Kristján Rúnar, doktor í eðlisfræði.

Námsferill

Stúdentsprófi lauk ég frá Kennaraháskóla Íslands 1975 og stundaði að því loknu nám í jarðfræði við Háskóla Íslands. Undanfarin misseri hef ég verið í viðskiptafræði við H.Í. Jafnframt þessu námi lauk ég námi í ferðamálafræði frá Málaskólanum Mími og Stjórnunarfélagi íslands og lauk námi í ensku frá Angolo World Education í London. Fyrir nokkuð mörgum árum síðan stundaði ég söngnám við Söngskólann í Reykjavík og lauk þar stigaprófum.

Í gegnum tíðina hef ég tekið þátt í ýmsum námskeiðum sem haldin hafa verið, til dæmis um kirkjumál, umhverfismál, skógrækt, skipulagsmál og margt fleira.

Kirkjuþingskonan

Var kjörin á Kirkjuþing árið 2006 sem leikmaður fyrir Reykjavíkurprófastsdæmi eystra. Á mínu fyrsta Kirkjuþingi var ég kosin fyrsti varaforseti þingsins og jafnframt í forsætisnefnd þingsins. Frá árinu 2006 hef ég starfað með vinnuhópi um mótun umhverfisstefnu þjóðkirkjunnar en það var biskupinn okkar Hr. Karl Sigurbjörnsson sem skipaði í þann hóp. Árið 2007 lagði ég fram frumvarp um umhverfisstefnu þjóðkirkjunnar sem ég síðan fylgdi eftir á næstu þingum. Á síðasta kirkjuþingi var umhverfisstefna þjóðkirkjunnar samþykkt og við það tækifæri gefin út bókin Ljósaskrefið sem er handbók Þjóðkirkjunnar fyrir umhverfisstarf í söfnuðum.

Starfið í Hjallakirkju

Ég hef starfað við kirkjustarf Hjallakirkju nánast frá upphafi, söng með kirkjukórnum í 8 ár og var fyrsti formaður kórsins. Í sóknarnefnd Hjallakirkju var ég á árunum 1994 til 2008 en síðustu árin þar var ég varaformaður sóknarnefndar.

Var fulltrúi Hjallakirkju í Hjálparstarfi kirkjunnar frá árinu 2001 og starfaði þar til 2008 og tók þar m.a. þátt í mótun skipurits innan kirkjunnar fyrir fulltrúa hjálparstarfs kirknanna. Var kjörin í leikmannaráð og var þar í 4 ár og kynntist því starfi sem þar fer fram.

Var í valnefnd Hjallakirkju frá upphafi. Ég hef starfað í messuhópi við Hjallakirkju og starfa þar enn. Flutti úr Hjallasókn fyrir rúmum tveimur árum í Digranessókn.

Sveitarstjórnarkonan

Ég hef tekið þátt í starfsemi sjálfstæðisflokksins í Kópavogi um árabil og gegnt þar ýmsum trúnaðarstörfum. Er nú bæjarfulltrúi í bæjarstjórn Kópavogs. Árin sem ég hef verið formaður umhverfisráðs Kópavogs eru nú orðin átta talsins. Ég tók við varaformennsku í skipulagsnefnd í vetur og hef setið í stjórn Reykjanesfólkvangs síðustu fjögur ár. Tók þátt í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi í febrúar sl. og fékk kosningu í fjórða sæti.

Atorkukonan

Ég hef alla tíð verið mikil áhugamanneskja um íþróttir. Var m.a. ein af stofnendum Körfuknattleiksdeildar kvenna Breiðabliks og er mikil áhugamanneskja um siglingaíþróttina, var formaður Siglingafélagsins Ýmis í nokkur ár og sit í stjórn UMSK.

Var nokkur ár í stjórn Foreldra- og kennarafélags Hjallaskóla og formaður þess um skeið. Norrænt samstarf er eitt af áhugamálum mínum og er ég nú í stjórn Norræna félagsins í Kópavogi. Hef verið skáti frá tíu ára aldri í Skátafélaginu Kópum í Kópavogi og starfa með gildisfélögum sem eru eldri skátar.

Söngur er gefandi og uppbyggjandi afl í mínu lífi. Kórastarf hefur verið fastur liður í 35 ár og í dag syng ég með Kammerkór Reykjavíkur og hef gert í nokkur ár.

Ástæða þess að ég gef aftur kost á mér til Kirkjuþings er áhugi á málefnum kirkjunnar og að fá tækifæri til að leggja mitt að mörkum til þess að efla kirkjustarf á Íslandi.

Endilega kíkið á heimasíðu mína: www.margretb.is


Reykjavíkurprófastsdæmi eystra   •   Skrifstofa í Breiðholtskirkju   •   Þangbakka 5   •   Sími: 567 4810   •   Netfang:

www.tru.is

Barnastarf þjóðkirkjunnar